7. desember, 2020

Ávarp forseta Stúdentaráðs á afmælishátíð 4. desember

Forseti Íslands, forsætisráðherra, rektor, stúdentar og aðrir góðir gestir heima í stofu.

Í dag fögnum við stórum tímamótum í sögu hagsmunabaráttu stúdenta. Það er heil öld liðin síðan Stúdentaráð Háskóla Íslands var sett á fót og til gamans má geta þess að eftir sex daga verða einnig hundrað ár liðin síðan stúdentar gengu fyrst til kosninga um sín eigin heildarsamtök. Stúdentaráð er því á svipuðum aldri og sjálft Ríkisútvarpið og Hæstiréttur Íslands. Frá upphafsárum Stúdentaráðs hefur mikið vatn runnið til sjávar og er óhætt að segja að samtökin hafi blómstrað og orðið að kröftugu hagsmunaafli sem berst fyrir stúdenta af alúð og eljusemi, jafnt innan sem utan háskólasamfélagsins.

Atómstöðin, skáldsaga Halldórs Laxness sem kom út árið 1948, olli miklum óþægindum meðal fólks vegna þess að hún þótti rammpólitísk. Halldór var andstæðingur Keflavíkurstöðvarinnar og var sagan talin vera framlag hans til herstöðvamálsins. Samtvinnun skáldskapar við málefni líðandi stundar leiddi til þess að mánuði eftir að Atómstöðin var gefin út var Halldór sviptur listamannalaunum. Því var að sjálfsögðu víða mótmælt, meðal annars af Stúdentaráði Háskóla Íslands, og sjö árum seinna varð Halldór fyrsti Nóbelsverðlaunahafi Íslands.

Stúdentaráð á að baki langa sögu af því að tjá sig um fjölbreytt málefni og hefur það iðulega haft mikið til síns máls. Óhefðbundin og pólitísk barátta stúdenta, grundvölluð í grasrótarstarfsemi, varð eitt af megineinkennum 68-kynslóðarinnar. Hún varð til þess að nýjar hugmyndir um hlutverk námsmanna spruttu upp, stúdentar komu þá úr flestum stéttum og höfðu fjölbreyttari hugmyndafræðilegan og félagslegan bakgrunn en áður hafði tíðkast. Það var þá sem Stúdentaráð mótmælti heimsókn utanríkisráðherra Bandaríkjanna 1972 og fóru í tveggja daga verkfall til að mótmæla skerðingu námslána 1975. Við minnumst því þess tíma sem einnar helstu uppsprettu baráttugleðinnar fyrir auknu réttlæti!

Á síðustu árum hefur Stúdentaráð verið einstaklega óhrætt við að láta í sér heyra, sýna aðhald, róttækni og framsækni! Hagsmunabarátta stúdenta snýst nefnilega um að tryggja réttindi stúdenta á mjög víðtæku sviði; jöfnu aðgengi að námi og þróun fjölbreyttra kennsluaðferða með tilliti til allra, en líka örugga fjármögnun Háskólans og sanngjörn kjör á vinnumarkaði. Hún snýst um að standa vörð um allt það sem viðkemur upplifun okkar sem stúdentar, og sem einstaklingar krefur hún okkur jafnframt um að sýna ábyrgð og berjast fyrir réttlátara samfélagi fyrir okkur öll.

Á árunum 1970-1975 varð sprengja í fjölgun nemenda við Háskóla Íslands er þeim fjölgaði í tæplega 2.200 manns sem á þeim tíma var tvöföldun nemendafjöldans. Þessar tölur eru okkur afskaplega smáar og fjarstæðukenndar í dag því við Háskólann stunda nú rúmlega 15 þúsund nemendur nám og fer þeim ört fjölgandi. Um er að ræða mjög fjölbreyttan nemendahóp sem þarf að mæta með jafnrétti að leiðarljósi. Það er beinlínis réttlættismál að rödd þeirra fái vægi í samfélagslegri umræðu og allri ákvarðanatöku sem þeim viðkemur.

Á þessum tímamótum er hlutverk Stúdentaráðs áríðandi, en ekki síður þátttaka stúdenta sjálfra í hagsmunabaráttunni. Í gegnum tíðina hafa stúdentar gengið til liðs við stúdentahreyfinguna vegna þess að þau eru ástríðufull, brenna fyrir málefnunum og vilja stuðla að breytingum til að gera háskólann og samfélag okkar allt enn betra og sterkara! Okkar krafta er hægt að nýta til framfara og þá skiptir árangursríkt samstarf stúdenta og háskólans, sem og stjórnvalda, höfuðmáli. 

Þegar ég hóf nám við Háskóla Íslands fyrir þremur árum hvarflaði ekki að mér að hagsmunabaráttan ætti erindi við mig. Ég komst hins vegar fljótt að því að hún varðaði alla stúdenta og þar með sjálfa mig, því með einum eða öðrum hætti hefur hún áhrif á hag heildarinnar og vinnur að jöfnuði. Það er það sem skiptir öllu máli! Það er sameiginlega hugsjónin um framþróun, samvinnu og heiðarleika sem drífur okkur áfram. Við gefumst ekki upp þó hindranir liggi á vegi okkar, það virkar öfugt á okkur, það sameinar okkur. Við setjum okkur háleit en réttmæt markmið og höfum sýnt að við náum árangri, jafnvel í málum sem fólk vænti ekki að við gætum haft áhrif á.

Það liggur því enginn vafi á að Stúdentaráð á enn margt inni og stefnum við á hundruði ára til viðbótar. Markmiðið er að ráðið teygi anga sína víðar, hvert sem veruleikinn leiðir okkur áfram, haldi áfram að mæta undirbúið til leiks og krefjist þess sem er satt, rétt og fallegt!

Kæra Stúdentaráð Háskóla Íslands, stúdentar og aðrir velunnarar Stúdentaráðs, innilegar hamingjuóskir með aldarafmælið.

 

Isabel Alejandra Díaz, forseti Stúdentaráðs

4.desember 2020

 

 

 

Deila

facebook icon
linkedin icon