31. desember, 2020
Annáll Stúdentaráðs 2020
Á þessu ári fagnaði Stúdentaráð Háskóla Íslands 100 ára afmæli sínu. Stór tímamót í sögu hagsmunabaráttu stúdenta sem varð að gera skil. Árið hefur þó verið gríðarlega annasamt og krefjandi á öllum sviðum en á sama tíma mjög gefandi.
Nýtt Stúdentaráð tók við á skiptafundi þann 14. maí og hófst þá aðlögunartímabilið. Skrifstofa Stúdentaráðs tók formlega til starfa 1. júní og var full tilhlökkunnar fyrir að takast á við áskoranirnar sem blöstu við. Það er öruggt að segja að við gerðum okkur fulla grein fyrir því að árið yrði allt öðruvísi og að heimsfaraldur kórónuveiru yfirtæki meginþorra þess en þrátt fyrir var orkustigið ansi hátt. Fráfarandi skrifstofa hafði unnið gríðarlega góða vinnu sem við sökktum okkur út í og héldum staðföst áfram að krefjast betri og sanngjarnari kjara fyrir stúdenta. Stúdentaráð hafði lagt fram nokkrar kröfur, fyrst 23. mars og síðan 11. apríl og var ein helsta krafan um rétt stúdenta til atvinnuleysisbóta. Stúdentaráð fór fram á að stúdentum yrði tryggt öryggisnet fyrir sumarið enda var orðið ljóst að fjárhagsstaða námsfólks væri slæm og var því viðbúið að henni færi versnandi ef ekki yrði gripið til langtímalausna.
Fyrsta verkefni nýrrar skrifstofu á nýju starfsári var að senda út þriðju könnun ráðsins um líðan og stöðu stúdenta á vinnumarkaði, unnin í samstarfi við Landssamtök íslenskra stúdenta (LÍS) og Mennta – og menningarmálaráðuneytið. Niðurstöður þeirrar könnunar voru í samræmi við áhyggjur stúdenta og seinni könnun Stúdentaráðs frá 6. apríl, sem sýndi rúmlega 40% atvinnuleysi meðal stúdenta við Háskóla Íslands. Á sama tíma var brugðið á það ráð að vekja stjórnvöld til umhugsunar og benda á óréttlætið í því að stúdentum hefði verið svipt réttinum til atvinnuleysisbóta þann 1. janúar 2010, en af launum þeirra væri samt ennþá greitt atvinnutryggingagjald í atvinnuleysistryggingasjóð. Því var reiknað út að atvinnutryggingagjöld þessa hóps síðustu 10 árin væru upp á 3.9 milljarða króna. Við útbjuggum reikning og birtum hann. Það vakti skiljanlega mikla athygli og var fjallað um uppákomuna í fjölmiðlum landsins. Stúdentaráð hélt áfram að vekja athygli á stöðu stúdenta og kröfunum sem það hafði lagt fram allt sumarið, og hefur hingað til skilað af sér fjórum umsögnum við frumvörpum um breytingar á lögum um atvinnuleysistryggingar.
Stúdentaráð hefur fundið mikinn meðbyr með kröfu sinni hingað til. LÍS stóð fyrir undirskriftasöfnun þar sem það kallaði eftir stuðningi við kröfu stúdenta til atvinnuleysisbóta sem 2.814 manns skrifuðu undir. Samstarfsnefnd háskólastigsins, sem samanstendur af öllum rektorum háskóla á Íslandi, studdi kröfu stúdenta um rétt okkar til atvinnuleysisbóta. Var það rektor Háskóla Íslands, Jón Atli Benediktsson sem skrifaði undir yfirlýsinguna fyrir hönd nefndarinnar. Í samtölum við rektor hefur hann einnig hvatt okkur eindregið til dáða. Í pontu Alþingis hefur verið vitnað í okkur og við studd, jafnvel vitnað í okkur af forsætisráðherra. Á þingi var lögð fram ályktunartillaga um aðgerðir í þágu námsmanna vegna COVID-19 og um að tryggja námsmönnum rétt til atvinnuleysisbóta sumarið 2020. Alþýðusamband Íslands tók undir kröfu stúdenta á blaðamannafundi í maí og 84.2% stúdenta sögðust styðja atvinnuleysisbótakröfu stúdenta yfir sumartímann. Þá hefur oft verið vísað í okkur í pontu Alþingis.
Menntasjóður námsmanna var einnig í deiglunni en umræður fóru fram á Alþingi sem Stúdentaráð svaraði fullum hálsi. Það skilaði sér og náðum við athygli þingmanna sem vísuðu í áherslur okkar í málflutningum sínum á þingi. Nýja námslánakerfið varð að lögum 9. júní 2020 sem voru í vissum skilningi gleðitíðindi. Loksins hafði námslánakerfið verið tekið í heildarendurskoðun og stúdentar komnir með nýtt og ferskt öryggisnet – eða hvað? Stúdentaráð fagnaði því að nýja kerfið væri að norrænni fyrirmynd og að námsfólk muni eiga kost á 30% niðurfellingu á höfuðstól námslánsins við námslok uppfylli þau sett skilyrði. Hins vegar undirstrikuðum við að grunnhugsjón sjóðsins, um að námslánakerfið eigi að standa undir sér sjálfu, væri ekki réttmæt. Það fjármagn sem mun skila sér inn með skatttekjum og sparnaði, með því að stúdentar fari fyrr út á vinnumarkaðinn, verður að renna aftur til sjóðsins. Við vorum vongóð með að úthlutunarreglurnar myndu tryggja stúdentum fjárhagslegt öryggi með því að hækka grunnframfærsluna en tækifærið til að sýna stuðning í verki var ekki gripið þegar þær voru samþykktar. Sara Þöll Finnbogadóttir, lánasjóðsfulltrúi Stúdentaráðs, heldur áfram að beita sér fyrir áherslum Stúdentaráðs í stjórn Menntasjóðs námsmanna, en í október opnaði sjóðurinn aftur fyrir umsóknir fyrir tilstilli lánasjóðsfulltrúa.
Í ágúst fór skólaárið af stað og viðbúið að það yrði mikið að gera þar sem Háskólanum barst metfjöldi umsókna. Það voru gleðitíðindi! Í samvinnu við Háskólann vorum við tilbúin í að taka á móti nýjum nemendum og nýnemadagarnir voru í fullum undirbúningi. Okkur til mikillar ama gátum við ekki haldið upp á nýnemadagana með hefðbundnu sniði en létum alls ekki þar við sitja. Skrifstofa Stúdentaráðs ásamt Markaðs- og samskiptasviði Háskólans útbjuggu afskaplega skemmtileg myndbönd fyrir nýja stúdenta þar sem öll þjónusta innan skólans var útskýrð í þaula og boðið upp á rafræna skoðunarferð um háskólasvæðið! Stúdentaráð ætlaði sér sömuleiðis að halda Októberfest í september með aldarafmælisívafi en við tókum fljótlega þá erfiðu en sjálfsögðu ákvörðun að aflýsa hátíðinni vegna samfélagsástandsins.
Af sömu ástæðu reyndist skólahald vera áskorun fyrir stúdenta og starfsmenn Háskólans. Skrifstofa Stúdentaráðs, ásamt starfsfólki skólans, fór af stað með nýnemahóp á facebook í þeirri von um að sameina sem flesta nýja nemendur til að tryggja upplýsingaflæði. Sóttvarnarreglur voru sífellt að taka breytingum og Háskóli Íslands brást við jafnóðum með því að uppfæra takmarkanir í samræmi við aðgerðir stjórnvalda. Stúdentaráð fylgdist grannt með og upplýsti stúdenta eins fljótt og auðið var.
Kórónuveirufaraldurinn hefur haft víðtæk og mismunandi áhrif á stúdenta sem hafa í miklu mæli verið í fjarnámi auk þess hefur verulega vantað félagslega þáttinn sem einkennir háskólagöngu okkar. Í byrjun október voru sóttvarnaraðgerðir hertar töluvert vegna fjölda smita í samfélaginu og kallaði það á eflda hagsmunagæslu Stúdentaráðs. Okkur datt satt best að segja ekki í hug að við yrðum að standa vörð um öryggi og heilsu stúdenta sem réttilega hafa haft áhyggjur af ófyrirsjáanlegri þróun faraldursins og hvernir hún kynni að hafa áhrif á námið þeirra. Stjórn Stúdentaráðs sendi erindi á yfirstjórn skólans um leið og hélt það samtal áfram út misserið. Í kjölfarið sendi Stúdentaráð út aðra könnun, fimmtu í röðinni, til að endurkortleggja líðan og stöðu stúdenta. Niðurstöður könnunarinnar voru samt sem áður til marks um að ástandið væri að leggjast mjög þungt á meginþorra stúdenta og er það bersýnilegt að bæði skólastjórnendur og stjórnvöld verði að leggjast við hlustir. Þær aðstæður sem stúdentar finna sig í eru alvarlegar og hverfa ekki með nýju ári. Undirrituð greindi frá stöðunni í Silfrinu um miðjan nóvember.
Það hefur verið lykilatriði fyrir Stúdentaráð að vera samstíga á þessu misseri. Réttindaskrifstofan og sviðsráðin hafa unnið rosalega þétt og náið saman. Við hljótum að fara að slá annað met í fundarhaldi á þessu starfsári, svipað og árið 1954! Stúdentar, ábyrgt baráttufólk, gerðu sitt allra besta til að komast í gegnum misserið óhult og má segja að þau hafi náð því markmiði, þá sérstaklega miðað við aðstæðurnar. Ég dáist af ykkar staðföstu og seiglu.
Það er þó úr ýmsu öðru að velja og segja frá á þessu starfsári. Til að mynda var viljayfirlýsing undirrituð vegna nýrrar byggingar Menntavísindasviðs á ársfundi Háskóla Íslands. Sú bygging á að rísa innan fjögurra ára og verða til þess að innviðir styrkist og starfsemi Háskólans sameinist á einn stað, sem er í takt við áherslur Stúdentaráðs. Loftslagsverkfallið var á sínum stað alla föstudaga kl 12:00 í sumar og þangað til að fjöldatakmarkanir settu strik í reikninginn, en Loftslagsverkfallið hlaut jafnréttisviðurkenningu Jafnréttisráðs nú á dögunum sem við erum afar stolt af. Við náðum því í gegn að seinka eindaga skrásetningargjaldsins fram í ágúst, þó okkar óskir sneru að því að afnema það fyrir þetta skólaár en ráðherra varð ekki við því. Háskóli Íslands mætti hins vegar sterkur til leiks og brást við beiðni okkar um að koma til móts við fjárhagsvanda stúdenta með því að ráðstafa fjármagni í sérstakan sjóð fyrir stúdenta á stúdentagörðunum sem höfðu engin fjárhagsúrræði. Gott samstarf Stúdentaráðs við Háskóla Íslands og Félagsstofnun stúdenta gerði téð úrræði að veruleika.
Í júní samþykkti Stúdentaráð einróma að styðja við umsögn Rauða krossins á Íslandi um frumvarp til breytingar á útlendingalögum. Það var gleðilegt að tilheyra ráði sem setti mannúð, réttlæti og virðingu í fyrsta sæti. Verkefnið Sprettur fór í fyrsta skipti af stað og voru móttökurnar mjög góðar. Í júlí bárust okkur fréttir um að Aurora samstarfsnetið hafi verið samþykkt sem evrópskt háskólanet af framkvæmdastjórn Evrópusambandsins og hlaut þar með veglegan fjárhagsstyrk. Háskóli Íslands hefur verið leiðandi innan háskólanetsins og með þessu móti getur hann haldið áfram að bæta hágæða kennslu og rannsóknir, samfélagslega ábyrgð og efla alþjóðlegt og þverfaglegt samstarf sitt. Þá var Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, kjörinn forseti háskólanetsins næstu tvö árin, okkur til mikillar ánægju.
Stúdentaráð fór í stefnumótunarferð út á land þar sem við gistum í eina nótt. Þar lögðum við línurnar að nýjum framkvæmdaáætlunum fastanefnda ráðsins en huguðum einnig að áframhaldandi aldarafmælisfögnuði Stúdentaráð, nýrri herferð og að sjálfsögðu áhrif kórónuveirufaraldursins á skólalífið. Í október hélt Félagslífs- og menningarnefnd Stúdentaráðs í samstarfi við Landsbankann aftur á móti fjar-bingó! Jón Gnarr var skemmtikraftur og stjórnandi kvöldsins ásamt því að rektor ávarpaði rúmlega 500 þátttakendur. Kvöldið heppnaðist með einsdæmum vel og á Félagslífs -og menningarnefnd mikið hrós skilið fyrir. Við héldum áfram samstarfi við Down Dog jóga- og hugleiðsluæfingaappið sem býður stúdentum upp á frían aðgang. Þá tilkynnti Félagsstofnun stúdenta að Dýragarður myndi opna á stúdentagörðunum í vetur sem er langþráður draumur stúdenta!
Það hefur verið flókið að fagna aldarafmæli Stúdentaráðs í miðjum heimsfaraldri. Við hófum árið á opnunarhátíð í Gamla bíói þann 31. janúar og svo áttu að vera viðburðir yfir allt skólaárið sem urðu því miður aldrei að veruleika. Á afmælisdegi Stúdentaráðs, þann 4. desember, héldum við þó að sjálfsögðu upp á öldina í Hátíðarsal Aðalbyggingarinnar með pompi og prakt þar sem sjálf GDRN og Vigdís Hafliðadóttir skemmtu gestum. Vegna fjöldatakmarkana var fámennt en góðmennt. Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, heiðraði okkur með því að opna hátíðina auk þess að Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, lokaði henni. Lilja D. Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, sendi inn myndband þar sem hún ávarpaði gesti og Jón Atli, rektor Háskóla Íslands, sagði okkur frá sínum árum í stúdentapólitík. Undirrituð nýtti tækifærið til að leggja áherslu á hlutverk Stúdentaráðs sem róttækt hagsmunaafl í þágu stúdenta. Á afmælisdaginn fögnuðum við einnig 2. tölublaði Stúdentablaðsins sem og nýrri heimasíðu, sem þú lesandi ert inni á núna, og erum við gríðarlega sátt með hana. Þá er vert að nefna að ásamt hæfileikaríku fagfólki vinnum við um þessar mundir að heimildaþáttaröð um Stúdentaráð sem mun vera sýnd á RÚV á komandi ári.
Árið 2020 hefur verið öðruvísi en önnur ár. Það hefur verið mikið um að vera og faraldurinn haft óhjákvæmileg áhrif á það allt. Við höfum átt þungar og erfiðar stundir en líka hamingjusamar og skemmtilegar, og erum gríðarlega þakklát og meyr fyrir þær allar. Það var ekkert leyndarmál að árið yrði afskaplega snúið og vorum við án efa tilbúin að beita okkur í þágu stúdenta. Við látum ekki deigan síga þrátt fyrir að tala fyrir daufum eyrum stórnvalda. Samtal milli stúdenta og stjórnvalda hefur vissulega átt sér stað í þeim skilningi að við fáum að koma áhyggjum okkar á framfæri. Hins vegar er ekki gripið til markvissra aðgerða sem byggja á kröfum okkar, þó það sé framkvæmanlegt. Við munum halda baráttunni fyrir viðunandi lífskjörum stúdenta áfram þangað til að stjórnvöld sýna stuðning í verki og leiðrétta stöðu stúdenta. Þetta ár heldur áfram að vera óhefðbundið og við höldum öll áfram að vinna okkar besta starf.
Gleðilegt nýtt ár kæru stúdentar, stúdentaráðsliðar, réttindaskrifstofa og aðrir velunnarar Stúdentaráðs.
Isabel Alejandra Díaz forseti Stúdentaráðs Háskóla Íslands