31. janúar, 2023
Uppgjör haustannar 2022 hjá Aurora
Aurora samstarfsnetið er langtíma samstarf 10 háskóla, sem lagði upp með það að markmiði að auka og dýpka þverfaglegt samstarf háskóla í Evrópu.
Aurora býður upp á ýmis tækifæri fyrir nemendur, sem dæmi má nefna opnar vinnustofur og verkefni á borð við hakkaþon og málstofur sem eru auglýst á samfélagsmiðlum og í gegnum hóppósta, styttri og lengri námskeið í öðrum Aurora háskólum þar sem einingar teljast til gráðunnar í heimaskólanum og samstarfsverkefni sem spanna akademískt ár, t.d. svokölluð Stúdentaskemu (e. Student Schemes) auk þess sem Stúdentaráð Aurora vinnur gegnumgangandi að ýmsum sameiginlegum verkefnum.
Háskólar í samstarfinu eru, auk Íslands, staðsettir á Spáni, Ítalíu, og í Frakklandi, Englandi, Tékklandi, Hollandi, Þýskalandi, Austurríki og Danmörku.
Aurora samstarfið kom upphaflega til vegna sameiginlegra markmiða skólanna og vilja til að starfa saman en hefur, á seinni árum, hlotið fjármagn frá Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins sem eitt af 44 háskólasamstörfum í gegnum verkefni sem er á ensku titlað European Universities initiative.
Síðasta önn var afar viðburðarík og því er upplagt að ljúka fyrsta mánuði nýs árs á uppgjöri nokkrum þeirra verkefna sem stúdentar unnu að á haustönn 2022.
Við upphaf síðustu annar var óskað eftir umsóknum nemenda sem höfðu áhuga á að starfa með Aurora í gegnum Stúdentaskemun. Alls bárust yfir 100 umsóknir frá nemendum hinna ýmsu skóla en frá Háskóla Íslands skráðu 25 nemendur sig sem annað hvort Ambassador eða Champion.
Eitt af stærstu verkefnum Aurora á undanförnum mánuðum hefur verið að vinna að umsókn um áframhaldandi fjármagn og nemendur tóku þátt í þeirri vinnu alveg frá upphafi.
Vinnan hófst síðasta sumar og, sem forseti Stúdentaráðs Aurora, sat ég í svokallaðri Editorial Committee sem fundaði reglulega og lagði grunninn að nýju umsókninni.
Í september söfnuðust svo verkefnastjórar allra 10 háskólanna saman í Copenhagen Business School í Kaupmannahöfn og vörðu tveimur dögum í að ákveða áherslur og verkefni Aurora næstu fjögur árin. Tveir fulltrúar nemenda tóku þátt í þeirri vinnu, forseti og varaforseti Stúdentaráðs Aurora, Alma Ágústsdóttir frá Háskóla Íslands og Hanus Patera frá Palacký Háskólanum í Olomouc.
Vinnan var gegnumgangandi eftir það en næsta stóra verkefni var ekki fyrr en í Nóvember, þegar Stúdentaráð Aurora safnaðist saman í Vrije Universiteit í Amsterdam. Þar funduðu nemendur í tvo daga til að safna saman áherslum sínum sem þau kynntu svo aðstoðarrektorum allra skólanna.
Frá Háskóla Íslands fóru Alma Ágústsdóttir, Alþjóðafulltrúi Stúdentaráðs Háskóla Íslands, og Rebekka Karlsdóttir, Forseti Stúdentaráðs Háskóla Íslands.
Ein megináhersla nemenda var að nemendum væri tryggð greidd staða í hverjum skóla fyrir sig, þar sem að þeim þótti ótækt að krefja nemendur sem taka hvað mest á sig fyrir Aurora að gera það eingöngu í sjálfboðastarfi. Slík staða myndi auka jöfnuð og gefa fjölbreyttari hópi tækifæri til að leggja hönd á plóg þar sem að efnahagsstaða nemenda getur gert þeim ómögulegt að taka að sér sjálfboðavinnu, óháð áhuga á starfinu. Nemendafulltrúinn (e. Student Coordinator) myndi þá, meðal annars, bera ábyrgð á því að veita öðrum nemendum sem taka að sér verkefni fyrir hönd Aurora stuðning, styðja við markaðsmál Aurora í hverjum skóla fyrir sig og sitja í Stúdentaráði Aurora.
Þetta skilaði árangri og greidd staða nemendafulltrúa var sett inn í umsókn Aurora um áframhaldandi fjármagn, sem skilað var inn 30. janúar.
Í nóvember fór einnig fram Biannual ráðstefna Aurora, haldin af Universität Duisburg-Essen. Ráðstefnan fór fram á netinu og Stúdentaráð Aurora stóð þar fyrir viðburði í formi heimskaffis um geðheilbrigði (en það er sameiginleg áhersla ráðsins á þessu skólaári) sem bar titilinn Mental Health: Sharing Best Practices. Þar söfnuðust saman nemendur, kennarar og starfsfólk háskólanna innan Aurora samstarfsins og báru kennsl á hvaða framtök í geðheilbrigðismálum væru að skila árangri, á hvaða sviðum skorti stuðning og hvar mætti gera betur. Þessi samráðsvettvangur gerði fólki, þvert á skóla og stöðu, kleift að læra hvort frá öðru og undir lok vinnustofunnar safnaði Stúdentaráð Aurora saman niðurstöðunum sem við munum halda áfram að vinna úr þeim á þessari önn.
Í desember fór svo fram ráðstefna í Tékklandi, haldin af Palacký University Olomouc, undir titlinum European Universities – Future of Higher Education Forum þar sem að fjöldi samstarfsneta sem taka þátt í European Universities framtakinu söfnuðust saman til að ræða framtíð evrópskra háskóla. Þar tók ég til máls um þátttöku nemenda í stjórnskipan og ræddi hvernig gera mætti betur til að nýta krafta nemenda sem allra best.
Sömuleiðis söfnuðust rektorar allra 10 Aurora háskólanna saman í Amsterdam í desember til að samþykkja allt það sem fram kom í umsókn Aurora um áframhaldandi fjármagn og ég sat þann fund sem forseti nemenda.
Síðan þá hefur vinnan um skipulagningu næstu fjögurra ára innan Aurora haldið áfram en umsókninni var skilað inn í gær, 30. janúar, og, þar sem ég hef tekið þátt í þeirri vinnu frá upphafi, treysti ég mér fyllilega til að segja að framtíðin hjá Aurora er björt!
Ef þú hefur áhuga á alþjóðastarfi og langar að vita meira um Aurora mæli ég eindregið með að kynna þér vefsíðuna okkar.
Hér má sjá þau námskeið innan Aurora sem hægt er að sækja um á hverjum tíma fyrir sig. Langi þig til að taka þátt í að móta stefnu háskólanna og vinna að þróun hinna ýmsu mála, t.d. umhverfismála, tæknivæðingar og kennsluhátta er enn hægt að skrá sig í Stúdentaskemun hér. Langi þig að fylgjast með opnum tækifærum og vinnu Stúdentaráðs Aurora getur þú fylgt okkur á Instagram.