20. september, 2023

Hagsmunabarátta stúdenta ber árangur: Skrásetningargjöld verða ekki hækkuð!

 

Í tilkynningu frá Stjórnarráðinu kemur fram að opinberir háskólar fái ekki heimild til að hækka skrásetningargjöld líkt og skólarnir óskuðu eftir í desember síðastliðnum. Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra hafði áður tekið þá ákvörðun að skrásetningargjöld yrðu ekki hækkuð á síðastliðnu vorþingi. Kom sú tilkynning í kjölfar herferðar Stúdentaráðs í mars síðastliðnum sem gekk undir yfirheitinu ,,Stúdentar splæsa” þar sem Stúdentaráð lagðist alfarið gegn hækkun skrásetningargjaldsins. Því eru miklar gleðifréttir fyrir stúdenta að opinberir háskólar fái ekki heimild til hækkunar skrásetningargjalda. 

Baráttan á sér langan aðdraganda en fyrir um áratug þegar skrásetningargjöld voru árið 2014 hækkuð úr 60 þúsund  í 75 þúsund. Þessari hækkun var mótmælt harðlega af Stúdentaráði og var í kjölfarið send kvörtun til Háskólaráðs og seinna meir til umboðsmanns Alþingis. Síðastliðin þrjú ár hefur baráttan verið hávær og hefur Stúdentaráð staðið að herferðum í tengslum við skrásetningargjöldin. 

Málið var aftur til umræðu skólaárið 2020-2021. Á háskólaráðsfundi 6. febrúar 2020 var rætt um hækkun skrásetningargjalda við Háskóla Íslands úr 75.000 í 104.000 krónur fyrir árið 2020 og í 107.000 kr. árið 2021. Í kjölfar þessarar umræðu sendi Stúdentaráð frá sér yfirlýsingu þar sem ráðið lagðist alfarið gegn þessari hækkun. Í mars 2020 sendi Stúdentaráð formlega kvörtun vegna skrásetningargjaldana til Umboðsmanns Alþingis og seinna í sama mánuði fékkst það staðfest frá þáverandi mennta-og menningarmálaráðherra að skrásetningargjöld yrðu ekki hækkuð að sinni. 

Í desember síðastliðnum kom fram á fundi Háskólaráðs að rektorar opinberu háskólanna höfðu sent sameiginlegt bréf á Áslaugu Örnu, ráðherra háskólamála. Í bréfinu var óskað eftir heimild til þess að skrásetningargjald yrði hækkað úr 75.000kr í 95.000kr. Þetta var harðlega gagnrýnt af fulltrúum stúdenta í Háskólaráði í bókun þeirra á fundinum. Í kjölfar þessa sendi Stúdentaráð frá sér yfirlýsingu þar sem ráðið lýsti yfir þungum áhyggjum af fjármögnun Háskóla Íslands en að auki var beiðni rektorana einnig harðlega gagnrýnd. Var þetta upphaf herferðar sem Stúdentaráð hrinti af stað í mars 2023. Herferðin endaði með friðsömum mótmælum stúdenta fyrir utan Ráðherrabústaðinn þann 10.mars þar sem ríkisstjórnarfundur fór fram. Rebekka Karlsdóttir, þáverandi forseti Stúdentaráðs, afhenti forsætisráðherra og fjármálaráðherra bréf sem innihélt samantekt á áherslum Stúdentaráðs sem og spurningar til ráðherra. Sú herferð bar árangur en líkt og kom fram hér áðan tilkynnti ráðherra háskólamála að skrásetningargjöld yrðu ekki hækkuð á vorþingi og fjárframlög til háskólastigsins yrðu aukin.

 

Skrásetningagjöldin þegar of há! 

Árið 2021 hratt Stúdentaráð af stað herferð undir yfirskriftinni ,,Stúdentar eiga betra skilið”. Sú herferð fjallaði um fjárhagslegt öryggi stúdenta. Í þeirri herferð undirstrikaði Stúdentaráð að skrásetningargjöld væru auknar álögur á samfélagshóp sem er nú þegar í viðkvæmri stöðu. Í sömu herferð var einnig undirstrikuð sú staðreynd að í nágrannalöndunum tíðkast ekki að íþyngjandi gjöld fylgi því að stunda háskólanám

Stúdentaráð fagnar þeirri ákvörðun ráðherra að veita ekki heimild til hækkunar en þó er nauðsynlegt að undirstrika að baráttunni er ekki lokið. Skrásetningargjöld og annað sem eykur fjárhagslegt óöryggi stúdenta veldur áfram áhyggjum. Öllum tilraunum til að hækka gjöldin í framtíðinni mun verða mætt af fullum þunga af hálfu stúdenta. Stúdentaráð hefur sýnt þrautseigju  við að gæta hagsmuna stúdenta og leggur áherslu á mikilvægi þess að stúdentar standi saman í þessum málum. 

 

En eru skrásetningagjöldin lögleg? 

Á sama tíma og tilkynning ráðherra er mikil gleðitíðindi er vert að minnast á þá staðreynd að Stúdentaráð hefur lengi sett spurningarmerki við lögmæti innheimtingu skrásetningargjalda yfir höfuð. Stúdentaráð telur að skrásetningargjald sem innheimt er við opinberu háskóla landsins samræmist ekki lögum um þjónustu háskólanna sem opinberra stofnana. Við hvetjum því ráðherra eindregið til að stíga skrefinu lengra og hefja vinnu við endurskoðun skrásetningargjalda með tilliti til lækkunar eða afnáms. 

Deila

facebook icon
linkedin icon