5. april, 2023

Viðbrögð Stúdentaráðs Háskóla Íslands vegna úthlutunarreglna Menntasjóðs námsmanna 2023-2024

Úthlutunarreglur Menntasjóðs námsmanna fyrir skólaárið 2023-2024 hafa verið samþykktar af háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra. Hér að neðan er að finna viðbrögð Stúdentaráðs við úthlutunarreglunum:

Aukinn sveigjanleiki fyrir foreldra

Stúdentaráð fagnar því að tekið hafi verið mið af ábendingum lánasjóðsfulltrúa Stúdentaráðs í stjórn Menntasjóðsins um aukið svigrúm foreldra í námi hvað varðar kröfur um lágmarks námsárangur. Svigrúm vegna barneigna hefur nú verið aukið úr 16 einingum í 22 einingar auk þess sem að hvort foreldri um sig á nú rétt á 22 eininga svigrúmi, en áður fyrr þurftu foreldrar að skipta því sín á milli. Með þessum breytingum geta foreldrar í námi tekið hlé frá námi í eina önn án þess að námslán þeirra komi til skerðingar.  Þetta stóraukna svigrúm er til þess fallið að auka fjárhagslegt öryggi foreldra í námi og draga úr óvissu. Það er því óhætt að segja að um sé að ræða mikla hagsbót fyrir foreldra í námi. Stúdentaráð telur mikilvægt að haldið sé áfram á þessari braut, til að mynda mætti koma betur til móts við foreldra eftir fyrsta ár barns og veita þeim hópi aukið svigrúm.

Grunnframfærsla og viðbótarlán vegna húsnæðis

Stúdentaráð lýsir yfir vonbrigðum yfir því að grunnframfærslan hafi einungis tekið vísitöluhækkun en ljóst er að hún hefur til lengri tíma verið of lág og þrátt fyrir 18% hækkun á síðasta ári þá dugar hún enn ekki til að standa straum af raunverulegum framfærslukostnaði hér á landi, þvert á fyrirmæli 2. mgr. 2. gr. laganna. Þrátt fyrir að húsnæðisgrunnur taki einnig vísitöluhækkunum þá byggir hann eftir sem áður á leiguverði á stúdentagörðum. Einungis um 11-12% stúdenta búa á görðunum og því er ljóst grunnurinn tekur ekki mið af raunverulegum aðstæðum meirihluta stúdenta. Þar að auki hefur grunnurinn ekki hækkað til lengri tíma og hefur því engan veginn haldið í við þróun leiguverðs á hinum almenna markaði.

Frítekjumarkið

Þá veldur það einnig vonbrigðum að ekki hafi verið tekið mið af kröfum fulltrúa stúdenta í stjórn sjóðsins um tvískiptingu frítekjumarksins að norrænni fyrirmynd. Í þessu samhengi er vert að minnast á þá staðreynd að frítekjumarkið hér á landi er það lægsta á Norðurlöndum en ljóst er samspil lágrar grunnframfærslu og lágs frítekjumarks getur haft alvarlegar fjárhagslegar afleiðingar í för með sér fyrir lántaka sem lenda í vítahring vinnu og of lágra námslána.

Þörf á breytingum

Stúdentaráð hefur ítrekað bent á vankanta þess fyrirkomulags að sjóðsstjórn sé falið að ákvarða upphæðir framfærslu- og viðbótarlána vegna húsnæðis. Til marks um þá vankanta er fyrst og fremst sú staðreynd að námslán hafa verið of lág svo árum skiptir. Menntasjóður námsmanna uppfyllir ekki hlutverk sitt sem félagslegur jöfnunarsjóður í núverandi mynd. Stúdentaráð bindur vonir við að tekið verði tillit til ofangreindra þátta í framhaldinu og sérstaklega við endurskoðun laga um Menntasjóð námsmanna sem nú stendur yfir.  Mikilvægt breytingar á kerfinu verði gerðar með þarfir og hagsmuni stúdenta að leiðarljósi.

 

Deila

facebook icon
linkedin icon