30. april, 2021

Yfirlýsing Stúdentaráðs Háskóla Íslands vegna nýrra úrræða stjórnvalda vegna COVID-19

Í dag tilkynntu stjórnvöld ný úrræði vegna COVID-19 sem ná m.a. til geðheilbriðismála, grunnframfærslu framfærslulána, sumarlána og frítekjumarksins hjá Menntasjóði námsmanna. Stúdentaráð Háskóla Íslands fagnar auknu fjármagni eyrnamerkt geðheilbrigðismálum en lýsir yfir verulegum vonbrigðum með tímabundna hækkun grunnframfærslunnar. Stúdentaráð hefur ítrekað bent á að aðgerðirnar sem boðaðar eru fyrir stúdenta hafi raunar einungis verið miðaðar að ákveðnum stúdentahópum og verið til skemmri tíma. Enn og aftur eru kjör stúdenta látin sitja á hakanum og engar langtímalausnir til frambúðar sjáanlegar, sem lýsir skilningsleysi á stöðu stúdenta og skort á pólitískum vilja. Eiga stúdentar ekki betra skilið?

Menntasjóður námsmanna

Stúdentar hafa kallað eftir að lágmarki 17% hækkun á grunnframfærslu framfærslulána hjá Menntasjóði námsmanna, til að samsvara dæmigerðu neysluviðmiði félagsmálaráðuneytisins. Stjórnvöld hafa aftur á móti boðað tímabundna hækkun á grunnframfærslunni sem nær einungis til þeirra stúdenta sem þéna minna en frítekjumarkið (1.410.000 kr.) á ári. Stúdentaráð er vonsvikið að hækkunin hafi ekki verið hærri og að hún nái einungis til ákveðins hóps stúdenta en ekki til allra þeirra sem taka framfærslulán. Þykir ráðinu það sérstaklega athugavert að eftir að Menntasjóður námsmanna varð settur á fót hafi nú í þrígang verið litið framhjá erfiðri fjárhagsstöðu stúdenta. Ráðið minnir á að á meðan endurskoðun kerfisins stóð á, þá lagði ráðið gríðarlega áherslu á að skýr fyrirmæli til stjórnar Menntasjóðsins væru í lögum sjóðsins um endurskoðun grunnframfærslunar milli ára, til þess að krafa yrði gerð um að stjórn gripi til aðgerða þegar þess væri þörf. Ekki var orðið við þeirri beiðni. 

Því til viðbótar stendur það óbreytt að frítekjumarkið fimmfaldast fyrir þau sem af vinnumarkaði koma eða hafa ekki verið á námslánum síðustu sex mánuði. Stúdentaráð er ennþá þeirrar skoðunar að fimmföldun frítekjumarksins eigi að ná til allra. Þá bendir ráðið á að þó að lágmarks námsframvindukrafa vegna náms yfir sumarið sé ein ECTS-eining þá er upphæð lánsins háð fjölda eininga sem stúdent klárar. Fáir stúdentar líta á námslán sem lausn við fjárhagsvanda sínum og veigra sér frá frekari skuldsetningu.

Geðheilbrigðismál

600 milljónum verður ráðstafað til geðheilbrigðismála fyrir börn og ungmenni til að mæta aukinni eftirspurn vegna faraldursins. Liður í því er að efla þjónustuna á háskólastiginu sem Stúdentaráð fagnar mjög enda er ráðinu annt um líðan stúdenta í námi og hafa Stúdentaráð og skólastjórnendur Háskóla Íslands verið samstíga í að tala fyrir auknum stuðningi í málaflokkinn.

Í kjölfar hertra aðgerða þann 24. mars sl. áttu fulltrúar Stúdentaráðs fund með mennta- og menningarmálaráðherra, lýstu þar yfir áhyggjum varðandi líðan stúdenta og óskuðu eftir aðgerðum. Á fundi með fulltrúum mennta- og menningarmálaráðuneytisins og heilbrigðisráðuneytisins þann 21. apríl sl. gerði forseti Stúdentaráðs grein fyrir stöðunni í Háskóla Íslands, sem er sú að eftirspurnin eftir viðtalsmeðferðum í sálfræðiþjónustu og í hópmeðferðir hefur orðið töluvert meiri samanborið við fyrri ár og umfram getu til að koma til móts við hana. Slíkar aðstæður hafa aldrei orðið áður í rúmlega 30 ára sögu sálfræðiþjónustu Háskóla Íslands.

Deila

facebook icon
linkedin icon