Default

Menntasjóður námsmanna

Menntasjóður námsmanna er nýja námslánakerfið á Íslandi sem tók til starfa 1. júlí 2020 og kom í stað Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN). Ný lög um Menntasjóð námsmanna voru samþykkt þann 9. júní 2020.

Hlutverk Menntasjóðsins er að tryggja þeim sem falla undir lögin um sjóðinn tækifæri til náms án tillits til efnahags eða stöðu að öðru leyti, með því að veita námsmönnum fjárhagslega aðstoð í formi námslána og styrkja.

Helstu breytingar í kjölfar setningu laganna eru að stúdentar geta fengið styrki vegna framfærslu barna í stað lána. Stúdentar geta fengið 30% niðurfellingu á námslánaskuld sinni ljúki stúdent námi sínu á tilskildum tíma. Þá munu ábyrgðir á námslánum, teknum í tíð eldri laga, falla niður svo fremi sem lántaki hafi verið í skilum með lán sín við gildistöku laganna.

Stúdentar geta valið um að endurgreiða námslán sín sem jafngreiðslulán eða tekjutengd lán ljúki stúdent námi fyrir 40 ára aldur. Þá geta stúdentar jafnframt valið um hvort námslánin séu óverðtryggð eða með verðtryggðum lánakjörum. Vextir á námslánum munu hækka og verða breytilegir og byggja á þeim vaxtakjörum sem ríkissjóði bjóðast á markaði að viðbættu vaxtaálagi sem árlega er ákveðið í úthlutunarreglum sjóðsins. Námslán eru hins vegar áfram verðtryggð á meðan á námi stendur.

Hægt er að hafa samband við Menntasjóðinn og óska eftir aðstoð í gegnum heimasíðuna www.menntasjodur.is, í gegnum netfangið menntasjodur@menntasjodur.is eða í gegnum síma +354 560 4000.