Stúdentaráð Háskóla Íslands

Hagsmunaafl í þágu stúdenta frá árinu 1920

Spurt og svarað um ólögmæti skrásetningargjalda

Af hverju er skrásetningargjaldið ólögmætt?

Fyrir skrásetningargjöldunum er skýr lagaheimild. Samkvæmt henni eru tvö skilyrði:

1) Gjaldið má ekki skila hærri tekjum en sem nemur samanlögðum útgjöldum vegna nemendaskráningar og tiltekinnar þjónustu.

2) Það má ekki rukka fyrir þjónustu sem telst til kennslu eða rannsóknarstarfsemi.

 

Háskólinn þarf lögum samkvæmt að reiða fram útreikninga eða traustar áætlanir þar sem sýnt er fram á með skýrum hætti, í hvað skrásetningargjaldið fer og hvort gjaldið sé að fara í þá þjónustu sem það má fara. Þetta hefur háskólinn ekki gert.

 

Þess vegna er ekki nokkur leið til að ganga úr skugga um að gjaldið sé ekki hærra en sem nemur útgjöldum. 

Þarf háskólinn að endurgreiða skrásetningargjaldið?

Áfrýjunarnefnd í kærumálum háskóla hefur úrskurðað að grundvöllur skrásetningargjaldsins hafi verið ófullnægjandi og þar með verið brotið gegn lögmætisreglunni.

Nefndin átti ekki að taka afstöðu til endurgreiðslu og gerði það þess vegna ekki. Hins vegar er alveg skýrt í lögum um innheimtu opinberra gjalda að ólögmæt gjöld ber að endurgreiða og málið blasir við okkur þannig að sú skylda sé fyrir hendi núna.

Getur Háskólinn endurgreitt nemendum?

Háskóli Íslands er ríkisrekinn, það væri mjög óábyrgt af ríkinu að láta endurgreiðsluna bitna á háskólanum. Þessi staða er fyrst og fremst komin til vegna stefnu stjórnvalda um undirfjármagnaða opinbera háskólamenntun.

Við vonumst til þess að þetta mál varpi ljósi á þá erfiðu fjárhagsstöðu sem háskólinn hefur verið í um árabil. Stjórnvöld þurfa að sýna í verki að opinber háskólamenntun á Íslandi skiptir íslenskt samfélag máli og fjármagna háskólana nægilega vel, svo þeir þurfi ekki að seilast í vasa stúdenta til að ná endum saman.

Hvað hefur þetta mál verið lengi í gangi?

Málið hófst árið 2020, þegar fyrrum nemandi og starfsmaður skrifstofu Stúdentaráðs, Jessý Jónsdóttir, kærði skrásetningargjaldið til Háskólaráðs vegna grunsemda um ólögmæti. Í Stúdentaráði hefur síðan verði einróma samstaða um að halda málinu áfram

Málið hefur legið í stjórnsýslunni síðan en úrskurður áfrýjunarnefndar kærumála háskólanema, sem kom 5. október sl. leiðir í ljós að grunur Stúdentaráðs var á rökum reistur.

Er háskólastigið vanfjármagnað?

Háskóli Íslands hefur lengi talað fyrir bættri fjármögnun, nýlegasta dæmið var í fyrra þegar HÍ lýsti því yfir  að milljarð vantaði upp á til þess að ná endum saman. 

 

Við sjáum þetta einnig svart á hvítu í samanburði við hin Norðurlöndin. Fjármagn sem fylgir hverjum nemanda árlega á Norðurlöndunum er að meðaltali 4,6 milljónir króna, á Íslandi er sá kostnaður aðeins 2,9 milljónir. Þess má einnig geta að ekkert hinna Norðurlandanna innheimtir skrásetningargjöld í opinberum háskólum.

Af hverju vill HÍ hækka skrásetningagjöldin?

Frá árinu 2020 hafa HÍ, og hinir opinberu háskólarnir, ítrekað farið þess á leit við Háskólamálaráðuneytið að hækka skrásetningargjaldið. Þessar beiðnir háskólanna um hækkun varpa skýru ljósi á raunverulegt hlutverk gjaldanna. Greinilegt er að Háskólinn reiðir sig á skrásetningargjaldið til að brúa bilið og greiða fyrir þá opinberu menntun sem stjórnvöld fela honum að veita, en eru ekki tilbúin að fjármagna.

En er 75.000 kr. nokkuð svo mikið?

Oft heyrist sú rödd, þegar upphæð skrásetningagjaldsins ber á góma, að 75.000 kr. sé ekkert svo há upphæð.

Fólk getur haft misjafnar skoðanir á fjárhæðinni, en gjaldið er hátt miðað við önnur þjónustugjöld og það verður í öllu falli að innheimta þau með lögmætum hætti

Getur háskólinn búið þessa útreikninga til eftir á?

Útreikningarnir, sem sýna nákvæmlega í hvað gjaldið fer, þurfa að vera til staðar þegar fjárhæð gjaldsins er ákvörðuð. Það er ekki hægt að vinna það aftur í tímann. 

Er bara hluti af skrásetningargjaldinu ólögmætur?

Niðurstaða nefndarinnar er að tilteknir liðir skrásetningargjaldsins “eigi ekki fullnægjandi lagastoð og uppfylli ekki þær kröfur sem gerðar eru til álagningar þjónustugjalda”.

Háskólinn á ekki útreikninga sem sýna hvernig gjaldið er reiknað og í hvað það fer. Það þýðir að allt gjaldið er reiknað með ólögmætum hætti. Þar til Háskólinn getur sýnt fram á að útreikningar hafi legið fyrir öll þessi ár er allt gjaldið ólögmætt.

Oval Copy 16@1.5x

Háskólann vantar milljarð, núna

Herferð Stúdentaráðs í mars 2023

Lestu meira
Oval Copy 16@1.5x

Niðurstöður könnunar SHÍ um fjárhagsstöðu stúdenta

Lestu meira
Oval Copy 16@1.5x

Stefna Stúdentaráðs vegna endurskoðunar á lögum um Menntasjóð námsmanna

Stúdentaráð Háskóla Íslands hefur birt stefnu sína vegna endurskoðunar á lögum um Menntasjóð námsmanna og tekur um leið undir kröfur Landssamtaka íslenskra stúdenta.

Lestu meira
Group 10@1.5x
Oval Copy 16@1.5x

Skýrsla Stúdentaráðs um stúdenta á húsnæðismarkaði

Stúdentaráð hefur gefið út skýrslu um stúdenta á húsnæðismarkaði. Skýrslan er hugsuð sem brýning til allra þeirra sem koma að ákvarðanatöku um réttindi og lífskjör þeirra.

Lestu meira
Group 10@1.5x

Námslán

Hér getur þú fengið upplýsingar um Menntasjóð námsmanna

Þarft þú að tilkynna brot eða áreitni?
Tilkynna