28. júní, 2022
Erindi frá Stúdentaráði Háskóla Íslands til nýkjörinna sveitarstjórnarfulltrúa á höfuðborgarsvæðinu
Stúdentaráð Háskóla Íslands hefur sent öllum nýkjörnum fulltrúum í sveitarstjórnum sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu erindi þar sem kallað er eftir auknum áherslum í málefnum stúdenta í störfum þeirra á komandi kjörtímabili.
Sveitarstjórnarstigið fer með vald yfir fjölda málaflokka sem snerta stúdenta, svo sem umhverfis-, samgöngu- og húsnæðismál og búa margir stúdentar við Háskóla Íslands í sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu.
Í erindinu eru listaðar upp helstu áherslur Stúdentaráðs í þessum málaflokkum ásamt tillögum að aðgerðum sem sveitarstjórnarstigið getur ráðist í. Flestar þessar tillögur fela í sér einfaldar breytingar sem auðsjáanlega eru til bóta fyrir stúdenta og aðra samfélagshópa, en ekki algjöra umbyltingu þeirra kerfa sem þegar hafa verið byggð upp. Því ætti töluverður hluti tillagnanna að geta orðið að veruleika án gífurlegs kostnaðarauka fyrir hið opinbera.
Það þarf pólitískan vilja til að ráðast í breytingar fyrir samfélagið þannig að það taki mið af öllum þeim hópum sem það mynda. Stúdentaráð vonast til að nýkjörnir sveitarstjórnarfulltrúar láti verkin tala og vinni að bættum hag stúdenta með því að láta ofantaldar tillögur verða að veruleika.