25. október, 2023

Erindi Stúdentaráðs Háskóla Íslands um fjárhagsstöðu stúdenta

Á stúdentaráðsfundi 19. október sl. samþykkti stúdentaráð að senda erindi til Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytisins og Fjármála- og efnahagsráðuneytisins um fjárhagsstöðu stúdenta. Tilefnið er að á haustþingi ber Alþingi að endurskoða lög um menntasjóð námsmanna nr. 60/2020, en í núverandi horfi veitir námslánakerfið svo lítinn stuðning við stúdenta að um 70% stúdenta vinna á sama tíma og kennsla fer fram. Af þeim sögðust 72% vinna vegna þess að annars hefðu þau ekki efni á að stunda nám.

Í erindi Stúdentaráðs segir: „Stjórnvöld verða að horfast í augu við þá staðreynd að þetta er vottorð, svart á hvítu, um að námslánakerfið hér á landi sé vanfjármagnað […]. Því hagstæðari sem námslánin eru, þeim mun líklegri er sá hópur sem er „of mikið“ á vinnumarkaði til þess að huga betur að náminu. Þetta virðist alveg hafa farið fram hjá íslenskum stjórnvöldum.“

„Áratugum saman hefur Stúdentaráð Háskóla Íslands bent á að fjárfesting í stuðningi við stúdenta er allt of lítil þrátt fyrir að þess megi vænta að ríkisútgjöld til þeirra mála borgi sig margfalt til baka, jafnvel þótt aðeins sé litið til skatta sem háskólamenntað fólk greiðir og litið fram hjá öðrum ávinningi. Þetta er grundvallarvandinn við námslánakerfið á Íslandi og engar hagræðingar eða tilfærslur á styrkjaleiðum munu leysa hann.“

Erindið má nálgast hér.

 

Deila

facebook icon
linkedin icon