6. desember, 2021
Inga Huld tilnefnd til félaga ársins af Stúdentaráði
Stúdentaráð tilnefndi Ingu Huld Ármann til félaga ársins 2021, á vegum Landssambands ungmennafélaga (LUF). Félagi ársins eru hvatningaverðlaun sem meðlimur innan aðildarfélags LUF hlýtur fyrir vel unnin störf á árinu. Allir sem eru tilnefndir hljóta viðurkenningu og er einn úr hópnum valinn sem Félagi ársins og hlýtur farandbikar LUF.
Inga Huld er stúdentaráðsliði og meðlimur sviðsráðs á Verkfræði- og nátturuvísindasviði ásamt því að vera forseti kennslumálanefndar Stúdentaráðs og sitja þar með í kennslumálanefnd háskólaráðs. Inga beitir sér af mikilli fagmennsku og alúð fyrir málefnum stúdenta hvort sem það er innan fræðasviðsins eða miðlægu stjórnsýslunnar. Kennslumálin eru ein grunnstoð hvers háskóla og það er gríðarlega mikilvægt að hafa þar sterkan einstakling að verja hagsmuni stúdenta.
Hamingjuóskir með viðurkenninguna kæra Inga Huld okkar!
Mynd tekin af heimasíðu LUF.