3. april, 2023
Íþróttaskóla SHÍ 2023 lokið í bili
Síðasti tíminn í bili
Síðasti tími Íþróttaskólans var laugardaginn 1. apríl en tímarnir voru alls 7 og hófust í byrjun febrúar á laugardagsmorgnum. Það var búningaþema og krakkarnir höfðu rosalega gaman að því að mæta og sprikla saman. Eftir tímann voru allir mjög duglegir að hjálpa til við að ganga frá en sú hefð – að hjálpa umsjónarmönnum að ganga frá – myndaðist í þessari lotu hjá eldri hópnum. Sumum börnum þótti meira spennandi að ganga frá en að leika í þrautabrautinni 😊. Við erum ótrúlega stolt af þessu verkefni og getum ekki beðið eftir að sjá alla aftur leika í salnum.
Hvað er Íþróttaskóli SHÍ?
Íþróttaskóli SHÍ er verkefni sem gefur stúdentum við HÍ tækifæri á að koma með börnin sín að leika í þrautabraut til að tengjast börnunum betur og efla þeirra hreyfi- og félagsþroska gegn afar vægu gjaldi. Tímarnir fara fram í Íþróttahúsi Háskóla Íslands við hliðina á Háskólatorgi. Það er alltaf boðið upp á létta hressingu eftir hvern tíma. Snillingarnir frá Holle voru svo væn að styrkja okkur um skvísur sem yngri börnin elskuðu.
Sjaldan verið jafn vinsæll
Þessa önnina fylltust báðir hóparnir eftir einn fjöldapóst sem sýnir hversu vinsælt og mikilvægt verkefnið er. Það ríkir gríðarleg ánægja meðal foreldra/forráðaaðila og barna með Íþróttaskólann sem við vonum að haldi áfram næstu annir. Við erum gríðarlega stolt af þessu verkefni og við viljum þakka öllum börnum og aðstandendum kærlega fyrir þátttökuna og samveruna þessa önnina!