22. april, 2022
Kjör á skrifstofu Stúdentaráðs 2022-2023
Rebekka Karlsdóttir var kjörin nýr forseti Stúdentaráðs Háskóla Íslands (SHÍ) síðastliðinn miðvikudag. Kosningin fór fram á sérstökum kjörfundi ráðsins en réttindaskrifstofa og nýkjörið Stúdentaráð munu formlega taka til starfa eftir skiptafund undir lok maí.
Rebekka mun útskrifast með BA gráðu í lögfræði frá Háskóla Íslands í júní 2022. Samhliða námi hefur hún starfað sem laganemi hjá BBA//Fjeldco og þar áður sem landvörður hjá Vatnajökulsþjóðgarði. Þá útskrifaðist Rebekka frá Menntaskólanum á Egilsstöðum árið 2016.
Á síðastliðnu ári var Rebekka sviðsráðsforseti á Félagsvísindasviði og sat þá í stjórn Stúdentaráðs og stjórn Félagsvísindasviðs. Rebekka hefur einnig setið sem fulltrúi stúdenta í kennslumálanefnd háskólaráðs, varafulltrúi í Stúdentaráði fyrir Verkfræði- og náttúruvísindasvið ásamt því að hafa verið forseti Röskvu, samtök félagshyggjufólks við Háskóla Íslands.
Ég er mjög spennt að taka við keflinu enda eru mörg tækifæri framundan í hagsmunabaráttu stúdenta, má nefna uppbyggingu háskólasvæðisins, ný stefna Háskóla Íslands, endurskoðun lánasjóðskerfisins og samstarf við nýtt ráðuneyti og ráðherra háskólamála. Sömuleiðis eru bjartir tímar framundan fyrir félagslífið í Háskólanum eftir 2 ár sem hafa einkennst meira og minna af fjarkennslu og heimaveru.
Á kjörfundi voru einnig kjörnir eftirfarandi fulltrúar á réttindaskrifstofu Stúdentaráðs:
Varaforseti: Gréta Dögg Þórisdóttir
Hagsmunafulltrúi: Katrín Björk Kristjánsdóttir
Lánasjóðsfulltrúi: María Sól Antonsdóttir