21. april, 2023

Kjör á skrifstofu Stúdentaráðs 2023-2024

Rakel Anna Boulter var kjörin nýr forseti Stúdentaráðs Háskóla Íslands (SHÍ) síðastliðinn miðvikudag. Kosningin fór fram á sérstökum kjörfundi ráðsins en réttindaskrifstofa og nýkjörið Stúdentaráð munu formlega taka til starfa eftir skiptafund undir lok maí.

Rakel Anna mun útskrifast með BA gráðu í bókmenntafræði frá Háskóla Íslands í júní 2023. Hún hefur starfað sem landvörður hjá Vatnajökulsþjóðgarði og Þingvallaþjóðgarði og starfað á skrifstofu Umhverfisstofnunnar. Þá útskrifaðist Rakel Anna frá Menntaskólanum á Akureyri árið 2019.

Á síðastliðnu ári var Rakel Anna sviðsráðsforseti á Hugvísindasviði og sat því í stjórn Stúdentaráðs og stjórn Hugvísindasviðs. Rakel Anna var einnig forseti kennslumálanefndar Stúdentaráðs og sat sem fulltrúi stúdenta í kennslumálanefnd háskólaráðs. Hún hefur einnig setið í stjórn Landvarðafélagsins í tvö ár. 

 

„Stúdentaráð hefur verið á góðri vegferð síðustu ár og ég er spennt að leiða þá vinnu áfram. Það eru stór mál á dagskrá hjá ráðuneyti háskólamála þar sem mikilvægt verður að rödd stúdenta heyrist, svo sem við endurskoðun menntasjóðsins og heildræna yfirferð á fjármögnunarlíkani háskólanna. Það eru áhugaverðir tímar framundan í háskólasamfélaginu, sem á án efa eftir að taka drastískum breytingum vegna tilkomu gervigreindar. Í þessu felast ýmsar áskoranir en ekki síður tækifæri um breytta og bætta kennsluhætti og aukin gæði menntunar.“ segir Rakel Anna.

Á kjörfundi voru einnig kjörnir eftirfarandi fulltrúar á réttindaskrifstofu Stúdentaráðs:

Varaforseti: Dagmar Óladóttir

Hagsmunafulltrúi: Rannveig Klara Guðmundsdóttir

Lánasjóðsfulltrúi: Gísli Laufeyjarson Höskuldsson

 

Á mynd frá vinstri: Rakel Anna, Dagmar, Gísli, Rannveig.

Deila

facebook icon
linkedin icon