5. maí, 2023
Matarspor er komið upp í Hámu á Háskólatorgi
Stúdentaráð fagnar! Matarspor er komið upp í Hámu á Háskólatorgi!
Stúdentaráð átti frumkvæði að verkefninu og fylgdi því eftir, en Inga Huld, þáverandi Stúdentaráðsliði, lagði fram tillögu á Stúdentaráðsfundi í janúar 2022 þess efnis að Stúdentaráð myndi beita sér fyrir því að Matarspor yrði innleitt í HÍ, sem tekið var vel í af hálfu skólayfirvalda og Félagsstofnun Stúdenta sem sáu um innleiðinguna.
Kolefnisfótsporið er reiknað fyrir heita matinn í Hámu og súpurnar og það sett í samhengi við það hversu langt þyrfti að aka fólksbíl til að losa sama magn gróðurhúsalofttegunda. Það er auðvelt að sjá muninn þar sem annar rétturinn og önnur súpan er alltaf vegan í Hámu. Næstu skref eru svo að birta upplýsingarnar á Uglu svo að þetta nái til allra á háskólasvæðinu.
Stúdentaráð fagnar því að þessi hugmynd hafi orðið að veruleika og hvetur stúdenta og starfsfólk til að kynna sér Matarsporið áður en máltíðin er valin.