28. july, 2021

Ný framkvæmdastýra á skrifstofu Stúdentaráðs

Vaka Lind Birkisdóttir hefur verið ráðin sem ný framkvæmdastýra á skrifstofu Stúdentaráðs Háskóla Íslands. Vaka Lind er 26 ára meistaranemi í alþjóðlegum stjórnmálum við Trinity College í Dublin á Írlandi, þaðan sem hún útskrifast í haust. Hún hefur áður lokið BA-prófi í félagsfræði með hagfræði sem aukagrein við Háskóla Íslands. Vaka Lind lauk stúdentsprófi úr Menntaskólanum við Hamrahlíð.

Starfsemi Stúdentaráðs er Vöku ekki ókunnug en hún sat í Stúdentaráði starfsárið 2017-2018 sem varafulltrúi á Félagsvísindasviði og því næst sem aðalfulltrúi starfsárið 2018-2019. Til viðbótar beitti hún sér innan stjórnar Félagsvísindasviðs og átti sæti í félagslífs- og menningarnefnd ráðsins. Vaka Lind var einnig virk í félagsstörfum innan sinnar námsleiðar og var gjaldkeri NORM, nemendafélags félagsfræðinnar, ásamt því að sjá um skipulagningu viðburða félagsins. Um þessar mundir er Vaka Lind fulltrúi mastersnema í stjórn MSF (Doctors Without Borders) eða Læknar án landamæra, við Trinity College.

Fyrri starfsreynslu hefur Vaka sem upplýsingafulltrúi og gjaldkeri hjá Skattinum til tveggja ára, en þar áður starfaði hún hjá UN Women. Meðmælendur gáfu Vöku mjög góð meðmæli og nefndu sérstaklega hve lausnamiðuð, áreiðanleg, félagslynd og opin hún væri í samskiptum.

Vaka Lind hefur afburðaþekkingu á hagsmunabaráttu stúdenta, reynslu af fjársýslustörfum, getu til að starfa sjálfsætt, vilja til að vinna með Stúdentaráði í heild sinni og menntun sem nýtist í starfi framkvæmdastýru. Stjórn Stúdentaráðs ákvað vegna þessa að ráða Vöku Lind Birkisdóttur til starfa við réttindaskrifstofu Stúdentaráðs Háskóla Íslands í stöðu framkvæmdastýru ráðsins, og hlakkar mikið til að vinna með henni að bættum hag stúdenta.

Deila

facebook icon
linkedin icon