2. mars, 2023

Sjúkra- og endurtektarpróf haustannar ekki lengur haldin í maí

Áralöng hagsmunabarátta ber árangur!

 

Margra mánaða bið eftir sjúkra- og endurtektarprófum heyrir nú sögunni til! Heimild til að halda sjúkrapróf haustmisseris í maí hefur nú verið felld úr gildi og tekin úr reglum skólans, þökk sé þrotlausri baráttu Stúdentaráðs og fulltrúa stúdenta í háskólaráði! 

 

Þetta þýðir að frá og með næsta skólaári munu öll sjúkra- og endurtektarpróf sem haldin eru vegna haustmisseris, fara fram í desember og janúar.

 

Þetta var gert með breytingum á reglum Háskóla Íslands á fundi háskólaráðs 2. febrúar sl., sjá hér.

 

Þessi breyting grundvallast á tillögu sem Rebekka Karlsdóttir, þáverandi stúdentaráðsliði og núverandi forseti Stúdentaráðs, og Ingvar Þóroddsson lögðu fyrir Stúdentaráð þann 20. október 2021. Þar var lagt til að Stúdentaráð og fulltrúar stúdenta í háskólaráði myndu beita sér fyrir því í sameiningu að reglum háskólans yrði breytt á þann veg að heimild til að halda prófin í maí yrði felld úr reglum skólans. Þáverandi fulltrúar stúdenta í háskólaráði, þær Isabel Alejandra Díaz og Jessý Jónsdóttir fylgdu málinu svo eftir innan háskólaráðs, sem og tillöguberar í Stúdentaráði innan félagsvísindasvið.

Tillöguna þeirra má finna hér.

 

Stúdentaráð þakkar öllum þeim sem áttu hlut að máli fyrir sína vinnu í þágu þess að tryggja jafnari stöðu meðal nemenda mismunandi fræðasviða innan skólans.

Deila

facebook icon
linkedin icon