12. april, 2021
Afstaða Stúdentaráðs til sumarnáms og sumarstarfa 2021
Skrifstofa Stúdentaráðs hefur verið í samskiptum við mennta- og menningarmálaráðuneytið og félagsmálaráðuneytið varðandi atvinnuleysisbótakröfuna sem og úrræði fyrir stúdenta fyrir komandi sumar. Stúdentaráð hefur ítrekað afstöðu sína um að skapa þurfi fjölbreytt störf fyrir þann stóra hóp sem stúdentar mynda og að hvert starf yrði að vera til þriggja mánuða í stað tveggja eins og sumarið 2020. Störfin þá voru í raun mun færri en lagt var upp með í byrjun, 3400 störf, og þau sem fengu starf voru þannig alltaf án framfærslu hluta sumars. Það er reiknað samkvæmt frumvarpi til fjáraukalaga, þar sem gert var ráð fyrir 2,2 milljarða til sérstaks átaks til að fjölga tímabundnum störfum fyrir námsmenn 18 ára og eldri.
Hefur ráðið lagt ríka áherslu á að útfærsla sumarstarfanna hafi ekki verið nógu góð. Störfin voru miðuð að fólki í rannsóknartengdum verkefnum, hjá opinberum stofnunum og ráðuneytum, og því ekki hönnuð fyrir öll. Draga má þá ályktun að vandamálið hafi ekki verið að skortur hafi verið á fólki til að manna sumarstörfin eins og stjórnvöld vildu meina, heldur var framboðið ekki nægilegt þeim stóra hópi sem stúdentar mynda.
Í erindi sínu til mennta- og menningarmálaráðuneytisins, félagsmálaráðuneytisins, forsætisráðuneytisins og fjármálaráðuneytisins 25. janúar 2021, tók Stúdentaráð fram að átakið ætti að endurtaka með breyttum áherslum:
„Í ljósi samfélagsástandsins og ákveðinnar óvissu sem því fylgir, leggur Stúdentaráð til að úrræðið sé endurtekið með mun betri útfærslu og framkvæmd svo það nýtist sem flestum. Alla jafna er vandasamt fyrir stúdenta að finna störf sem samræmast þeirra námi og áhugasviði. Með því að skapa svoleiðis tækifæri til frambúðar geta stúdentar nýtt þá þekkingu sem þeir búa yfir og fengið frekari þjálfun á því sviði, sem skilar sér inn í samfélagið. Hér er um að ræða úrræði fyrir núverandi og framtíðar námsfólk og því lykilatriði að skipulagning og framkvæmd sé með bestu móti. Stúdentaráð býður fram krafta sína í það verkefni.“
Þann 9. apríl sl. tilkynntu stjórnvöld að sumarnám og sumarstörf yrðu í boði fyrir námsfólk fyrir sumarið 2021. Stúdentaráð fagnar því að unnið verði að því að skapa sumarstörf og boðið verði upp á sumarnám. Stúdentaráð rekur þó augun í að ráðningartímabil sumarstarfanna mun einungis ná til tveggja og hálfs mánaðar, ekki þriggja eins og stúdentar hafa kallað eftir. Gerir ráðið sér grein fyrir því að í ár er verið að ráðstafa 2,4 milljörðum en störfum fækkað úr 3.400 í 2.500 til þess að tryggja hærri laun samkvæmt nýjum kjarasamningum og lengra ráðningartímabil.
Stúdentaráð getur þó ekki annað en furðað sig á því að fjárfestingin og stuðningurinn sé ekki meiri í gegnum faraldurinn, þegar þörfin hefur verið hvað mest. Vonbrigðin eru því vegna síendurtekinna skammtíma aðgerða fyrir stúdenta, hvort sem þær snúast um fjármögnun háskólastigsins og endurskoðun námslánakerfisins eða til að sporna gegn atvinnuleysi og mæta efnahagslegum áhrifum faraldursins.
Sumarnám
Hvað sumarnámið varðar bindur Stúdentaráð vonir við að þeir háskólar sem ætla að bjóða upp á námskeið geti boðið stúdentum námskeið sem koma til með að nýtast þeim í námi sínu, og að tillit sé tekið til þess ef stúdentar sækja nám þvert á skóla. Þá áréttar ráðið að það að fara í sumarnám er með engu móti það sama og að eiga starf sér til framfærslu. Vissulega er það úrræði sem kemur til með að grípa ákveðinn hóp stúdenta en úrræðið skal ekki vera tekið með í reikninginn sem spornun gegn atvinnuleysi, eins og gert var í fyrrasumar, og allra síst þegar þeir stúdentar sem sumarnám sækja þurfa að styðjast við námslánakerfið.
Fjárhagslegt öryggi fyrir stúdenta
Frá því að kórónuveirufaraldurinn skall á hérlendis hefur Stúdentaráð Háskóla Íslands með mjög skýrum hætti farið með kröfur um aðgerðir fyrir stúdenta, til bæði skemmri og lengri tíma. Stúdentaráð lagði fyrst fram kröfur sínar þann 23. mars 2020 og hafa helstu kröfur ráðsins síðan þá snúið að rétti stúdenta til atvinnuleysisbóta og hækkun grunnframfærslu framfærslulána hjá Menntasjóði námsmanna.
Stúdentaráð hefur skilað af sér alls sjö umsögnum við sjö ólíkum frumvörpum er varða breytingar á lögum um atvinnuleysistryggingar og aðgerðum til að draga úr tjóni kórónuveirufaraldursins. Þær umsagnir hafa fyrst og fremst tekið mið af stöðu stúdenta innan atvinnuleysistryggingakerfisins og námslánakerfisins sem og atvinnuleysi stúdenta, og voru skrifaðar í von um að úrræði stjórnvalda næðu einnig til þeirra. Erindi ráðsins til stjórnvalda hafa verið þó nokkur, núna síðast 25. janúar í tilefni af herferð ráðsins um fjárhagslegt öryggi stúdenta, „Eiga stúdenta ekki betra skilið?“.
Stúdentaráð áréttar af þessu gefnu tilefni eftirfarandi kröfur
- Stúdentaráð telur nauðsynlegt að tryggja stúdentum rétt til atvinnuleysisbóta í lögum um atvinnuleysistryggingar nr. 54/2006. Almenn skilyrði þess að launamaður eigi rétt á atvinnuleysisbótum má finna í 13. gr. laganna og er þar eitt skilyrðið að vera í virkri atvinnuleit skv. 14. gr. laganna en stúdentar teljast ekki vera í virkri atvinnuleit og eiga almennt ekki rétt á atvinnuleysisbótum. Stúdentar áttu hins vegar rétt til atvinnuleysisbóta í námshléum fram að 1. janúar 2010, þegar sá réttur var tekinn af þeim.
Samkvæmt lögum um tryggingagjald renna tekjur ríkisins af atvinnutryggingagjaldi, sem greitt er af launum starfsfólks, til Atvinnuleysistryggingasjóðs og Tryggingasjóðs sjálfstætt starfandi einstaklinga. Í dag er gjaldið 1,35% af launum alls vinnandi fólks og þar á meðal stúdenta. Stúdentar eru samt sem áður undanskildir atvinnuleysistryggingakerfinu. Ef miðað er við að 70% stúdenta Háskóla Íslands vinni samhliða námi, í hálfu starfi að vetri og fullu starfi að sumri á lágmarkslaunum, nema atvinnutryggingagjöld þess hóps yfir 4 milljarða króna frá 2010. Samkvæmt EUROSTUDENT VI vinna stúdentar þó að meðaltali 26 klst. á viku með námi sem er nær 70% starfshlutfalli og því er talan í raun töluvert hærri en 4 milljarðar. Það er því fráleitt að stúdentar hafi verið án réttinda úr sjóðnum í áratug. Ef við myndum snúa aftur til kerfisins fyrir 2010 myndi vinnandi námsfólk einfaldlega geta sótt sér þann rétt sem það hefur áunnið sér með greiðslu atvinnutryggingagjalds af launum sínum og væru atvinnuleysisbæturnar því í samræmi við hve mikið einstaklingur hefur unnið síðastliðna 36 mánuði, rétt eins og hjá öðrum sem missa vinnuna.
Atvinnuleysisbótakrafa Stúdentaráðs snýst um að allir stúdentar sem þurfa að sækja sér fjárhagsaðstoðar, sökum atvinnuleysis, hafi kost á því til jafns við aðra vinnandi landsmenn.
- Grunnframfærsla framfærslulána hjá Menntasjóði námsmanna verður að hækka þannig að hún samsvari, að lágmarki, dæmigerðu neysluviðmiði félagsmálaráðaneytisins. Stúdentaráð fagnar því að nýr hópur ráðuneytisstjóra leitar nú leiða til að hækka grunnframfærslu framfærslulána. Stúdentaráð bindur vonir við að tillögur hóps ráðuneytisstjóra skili sér í hækkun umfram verðlagsbreytinga. Þá bindur Stúdentaráð vonir sínar við að Menntasjóðurinn sýni lántökum og endurgreiðendum sama sveigjanleika og sumarið 2020.
Stúdentaráð undirstrikar að aðgerðirnar sem hafa verið kynntar fyrir sumarið 2021 séu eitt af þeim mörgum skrefum sem þarf að taka til að tryggja stúdentum fjárhagslegt öryggi. Þá hlakkar ráðið til að sjá framboð sumarstarfa og sumarnáms en ítrekar mikilvægi þess að tryggja að námsmenn verði ekki án atvinnu og framfærslu í sumar, líkt og stjórnvöld taka fram í tilkynningu sinni. Samtímis verður að vinna markvisst að langtímalausnum við að tryggja stúdentum fjárhagslegt öryggi til frambúðar.