24. nóvember, 2022
Stúdentaráð blés til málfundar um skrásetningargjaldið í hádeginu í gær, 23. nóvember 2022.
Forseti Stúdentaráðs, Rebekka Karlsdóttir opnaði fundinn með tölu um hvers vegna Stúdentaráð boðar til fundarins og afstöðu ráðsins gagnvart gjaldinu. Þá var opnað fyrir umræður og sátu þau Jóna Þórey Pétursdóttir, lögfræðingur og fyrrverandi forseti Stúdentaráðs, Erla Guðrún Ingimundardóttir, aðallögfræðingur á rektorsskrifstofu háskólans og Friðrik Jónsson, formaður Bandalags háskólamanna fyrir svörum. Mbl.is fjallaði um fundinn, ásamt því að rætt var við forseta Stúdentaráðs í hádegisfréttunum á Bylgjunni í dag (byrjar á 09:42).
Á fundinum sköpuðust góðar umræður en þó er enn mörgu ósvarað, og mun ráðið halda samtalinu um skrásetningargjöldin almennt, lögmæti þeirra og fjármögnun háskólastigsins áfram af fullum krafti.
Ljóst er að nemendur á Íslandi standa undir miklu meira af fjármögnun háskólastigsins heldur en gildir á Norðurlöndunum og þarf að tala um hvernig háskólastigið er fjármagnað með réttum orðum og gegnsæjum hætti. Stúdentaráð telur háskólann vera með gjaldinu að rukka stúdenta meira en lög heimila og gjöldin feli þannig í sér falin skólagjöld.
Næstu skref
Stúdentaráð hefur kallað eftir því að löggjafinn bregðist við, ásamt því að óskað hefur verið ráðherra til þess að ræða lögmæti skrásetningargjaldsins og fjármögnun háskólastigsins í heild sinni. Jafnframt mun ráðið fylgjast með máli nemandans, sem komið er aftur til áfrýjunarnefndar í kærumálum háskólanema og fylgja því eftir innan háskólans.
Skrásetningargjaldið felur í sér álögur á stúdenta og dregur úr jöfnu aðgengi fólks að háskólamenntun. Stúdentaráð mun halda áfram að þrýsta á að stjórnvöld standi við gefin loforð um stórsókn í menntun og geri nauðsynlegar breytingar á fyrirkomulagi fjárveitinga til háskólastigsins, til að tryggja jafnrétti til náms og samkeppnishæfni íslenskrar háskólamenntunar.
Meðfylgjandi eru myndir sem Kristinn Magnússon tók fyrir
mbl.is á fundinum: