23. maí, 2023
Yfirlýsing Stúdentaráðs Háskóla Íslands vegna hinsegin fræðslu innan Heilbrigðisvísindasviðs
Stúdentaráð Háskóla Íslands lýsir yfir áhyggjum um skort á hinsegin fræðslu innan Heilbrigðisvísindasviðs og telur nauðsynlegt að hinseginfræðslu verði bætt við í skyldufög innan sviðsins, þá sérstaklega í grunnnámi læknis- og hjúkrunarfræði.
Árið 2022 voru gefnar út tvær skýrslur unnar af nemum HÍ sem fjalla um stöðu og réttindi trans og kvára á Íslandi. Önnur skýrslan, Kynjasamþætting út fyrir kynjatvíhyggjuna, unnin af Birtu B. Kjerúlf, er byggð á rannsókn hennar á stöðu réttinda trans fólks og kvára innan stjórnsýslu Íslands og hin skýrslan, „Að vera kvár á Íslandi: Hvað felst í kynjajafnrétti fyrir kvár?“, unnin af Birtu Ósk, fjallar um og gefur góða mynd á hver félagslega staða kvára er á Íslandi í dag. Báðar rannsóknir sýndu þær niðurstöður að trans og kynsegin fólk stendur frammi fyrir stórum áskorunum innan heilbrigðiskerfisins, og þá sérstaklega þegar kemur að þekkingarleysi heilbrigðisstarfsfólks. Niðurstöður úr báðum rannsóknum sýndu að kerfið vinnur ekki með trans og kynsegin fólki og að auknir fordómar og vanþekking innan heilbrigðisgeirans skili af sér lélegri þjónustu fyrir þennan hóp samfélagsins.
Mikilvægt er að brugðist verði við og ráðist sé á rót vandans, sem í grunninn er fáfræði og vanþekking heilbrigðisstarfsfólks, með því að byggja upp þekkingu strax í grunnnámi. Núverandi hinseginfræðsla er af skornum skammti og fer nær einungis fram á þverfaglegum degi Heilbrigðisvísindasviðs, sem er haldinn innan sviðsins ár hvert þar sem nemendur úr ólíkum deildum innan sviðsins koma saman og fá kennslu um mismunandi efni. Þar er um klukkustundarlangur dagskrárliður sem heitir ,,margbreytileiki samfélagsins” þar sem farið er yfir hinseginleikann í stuttu máli Ljóst er að þetta er langt frá því að vera næg fræðsla fyrir framtíðar starfsfólk heilbrigðiskerfisins.
Stúdentaráð telur því nauðsynlegt að hinseginfræðslu verði bætt við í kennsluskrá skyldufaga innan sviðsins, þá sérstaklega í grunnnámi læknis- og hjúkrunarfræði, og skorar á stjórn Heilbrigðisvísindasviðs að bregðast fljótt við. Með því að opna á umræður og auka fræðslu innan sviðsins er Háskólinn að stíga fram og taka eindregna afstöðu með trans einstaklingum í samfélaginu og tilverurétt þeirra. Háskóla Íslands ber samfélagsleg skylda til þess að vinna gegn mismunum og ein leið til að gera það er með aukinni fræðslu um jaðarsetta hópa og stöðu þeirra innan samfélagsins.